Aron Snær Júlíusson skrifaði í dag undir námsstyrk við University of Louisiana – Lafayette, en hann mun leika með golfliði skólans í fjögur ár. Aron lýkur námi næsta vor úr Fjölbrautarskóla Garðabæjar, og mun hann því hefja nám í háskólanum í ágúst 2016. Þetta er spennandi tækifæri fyrir Aron Snæ sem hefur verið einn af fremstu kylfingum landsins undanfarin ár, og var m.a. valinn efnilegasti kylfingurinn árið 2013 af afreksnefnd GSÍ.

Aðstæður eru afar góðar til æfinga og golfleiks í UL-Lafayette, og öll umgjörð fyrir kylfingana til fyrirmyndar, hvort sem er þegar kemur að golfinu eða aðstoð við námið, en Aron Snær hyggst leggja fyrir sig sálfræði. Líkt og öll háskólalið þá kalla háskólaliðin sig eftir lukkudýrinu, en hjá UL-Lafayette er það Ragin Cajuns!

UL-Lafayette hefur langa hefð fyrir Íslendingum í golfliðinu, en Úlfar íþróttastjóri lék með skólaliðinu þar frá 1989-1993. Í kjölfarið fylgdu fyrrum landsliðs- og atvinnumenn eins og Björn Knútsson, Þórður Emil Ólafsson (formaður GL), Örn Ævar Hjartarson, og okkar félagar Ottó Sigurðsson og Ragnar Már Garðarsson, sem er þar nú við nám og golfleik ásamt Haraldi Franklin Magnús úr GR. Aron Snær mun því halda Íslendingahefðinni áfram í Louisiana.

Hér er hægt að skoða upplýsingar um golflið skólans.

Við óskum Aroni Snæ innilega til hamingju með þennan mikla áfanga í átt að hans stóru markmiðum.