Vaskur hópur GKG-inga, alls 43 kylfingar á aldrinum frá 5 upp í 72 ára, fór saman í æfingaferð til Spánar þann 28. mars - 5. apríl sl. Kjarninn úr hópnum var afrekskylfingar úr klúbbnum, alls sautján og tólf þeirra enn með keppnisrétt á unglingamótaröð GSÍ. Hinir 5 eru lítt eldri. Með í för voru síðan aðalþjálfararnir tveir, Úlfar Jónsson og Derrick Moore (eða Dáðríkur hinn meiri eins og ástsæll fréttaritari RÚV á Spáni kysi ugglaust að kalla hann). Þá var fjöldi foreldra og firnari áa og annarra fylgifiska úr GKG með í för.
Nánar tilgreint var farið til Costa Ballena, sem mun útleggjast Hvalaströndin þýtt yfir á ástkæra ylhýra. Ströndin sú tilheyrir syðri Atlantshafsströnd Spánar og er nokkurn veginn miðja vegu á milli landamæra Spánar við Portúgal og Gíbraltar. Gist var á hóteli sem kallað er Barceló og er fjögurra stjarna. Ekki væsti því um nokkurn mann.