Holukeppni GKG var endurvakin í fyrra eftir nokkurt hlé og átti trjáræktarnefnd klúbbsins frumkvæði að því. Þátttaka var mjög góð og kepptu 63 þátttakendur um að komast í hina eiginlegu holukeppni, en 32 efstu fá rétt til þess.
Sunnudaginn 10. júní fór fram úrtökumót fyrir holukeppni GKG 2012 og var þátttakan enn betri en í fyrra, því að þessu sinni kepptu 71 kylfingur um 32 sæti í holukeppninni. Því er ljóst að holukeppnin nýtur vaxandi vinsælda hjá almennum félögum GKG, enda keppni þar sem allir ættu að eiga jafna möguleika á að sigra, þar sem leikið er með fullri forgjöf (að vísu með hámarks leikforgjöf 28).
Bestum árangri í úrtökumótinu náði Bragi Aðalsteinsson með 42 punkta, en Hans Hjalti Hansen hlaut 41 punkt. 31 keppandi fékk 33 punkta eða meir og komst því í holukeppnina. Alls fengu 8 keppendur 32 punkta, en aðeins einn þeirra komst áfram. Umdir þessum kringumstæðum gildir besta skor á seinni 9 holunum.
Trjáræktarnefnd hyggst beita sér fyrir því að krýning holumeistara GKG verði fastur liður á aðalfundi klúbbsins hvert haust.
Niðurröðun í 1. umferð holukeppninnar, sem skal lokið eigi síðar en 28. júní, hefur verið birt í skálanum, en keppendur skulu sjálfir koma sér saman um leiktíma. Hægt er að sjá viðureignir í 1. umferð í meðfylgjandi viðhengi.
Önnur umferð skal fara fram á tímabilinu 9.-23 júlí (meistaramót klúbbsins verður haldið 1.-7. júli) og síðan áfram á ca 2ja vikna fresti. Gert er ráð fyrir að úrslitaviðureignin fari fram fyrstu vikuna í september og ræðst þá hver verður holumeistari GKG árið 2012.
Mótstjóri