Haustpistill formanns GKG

Home/Fréttir/Haustpistill formanns GKG

Haustpistill formanns GKG

Ágætu GKG-ingar

Bændaglíman um helgina markaði lok sumarstarfsins. Framundan er haust- og vetrarstarfið sem þegar er byrjað að kynna. Ég hvet ykkur öll til að fylgjast vel með vefsíðu GKG eða gerast vinur GKG á Facebook. Þar birtast reglulegar fréttir úr félagsstarfinu og tilkynningar um það sem er á döfinni. Af nógu verður að taka í vetur.

GKG stendur frammi fyrir ýmsum áskorunum. Garðabær hefur verið að vinna að nýju aðalskipulagi. Uppi eru hugmyndir um að æfingasvæði og hluti Mýrarinnnar verði blandað íþrótta- og þjónustuvæði. Á móti mun GKG fá land niður að Vífilstaðavatni. Allt þetta höfum við kynnt vel á heimasíðu GKG.

Við þurfum að huga enn betur að gæðum vallanna. Flatirnar okkar voru til dæmis ekki nægjanlega góðar fram eftir sumri. Fyrir aðalfund munum við kynna aðgerðaráætlun sem miðar að því að flatir GKG verði í fararbroddi á Íslandi, enda eru vellirnir þungamiðjan í starfi félagsins og verða ávallt að vera eins góðir og kostur er.

Við þurfum að halda áfram að bæta aðstöðuna úti og inni. Þegar hefur verið ákveðið að kaupa fleiri golfherma. Þeir verða settir í rýmið með sláttuneti á neðri hæðinni. Nýju golfhermarnir munu fyrst og fremst nýtast til æfinga, bæði fyrir almenna kylfinga og afrekskylfinga. Við munum kynna þau mál betur á næstu vikum. Einnig hefur verið ákveðið að bæta vélakostinn því hann hefur verið að ganga úr sér á síðustu árum. Góður vélakostur er lykilþáttur í því að umhirða vallanna sé ásættanleg.

Aðalfundur GKG verður haldinn síðar í haust. Dagsetning og dagskrá verða kynnt þegar nær dregur. Ég hef þegar ákveðið að ég mun ekki sækjast eftir endurkjöri sem formaður stjórnar. Fyrir því eru persónulegar ástæður.

By |11.10.2017|