Kvennanefndarformaðurinn okkar er fimmtugur Reykvíkingur með 36 í forgjöf sem kann heldur betur að njóta þess að vera golfari. Hún er búin að spila alla GSÍ velli á landinu , er hluti af hinum frægu liðakeppnis Pörum sem láta ekkert stoppa sig af þegar kemur að búningamálum og er búin að setja sér það dásamlega markmið fyrir sumarið að spila mikið og hafa gaman!

Við erum að sjálfsögðu að tala um Berglindi Jónasdóttur sem lumar líka á leynitrixi fyrir okkur inn í Meistaramót sumarsins og ef einhverjar GKG konur, sem eru ekki inni í kvennastarfinu, eru að lesa þetta þá eru upplýsingarnar um það skemmtilega starf hér fyrir neðan.  

Við gefum Berglindi orðið J

Hvað dró þig að golfinu og hvenær?

Ég fékk áhugann eftir að ég tók þátt í nokkrum Texas Scramble mótum með vinnunni. Árið 2018 ákvað ég að gera eitthvað meira með þetta og skráði mig í golfklúbb GKG og hef verið forfallinn síðan.

Hvers vegna valdirðu GKG?

Stutt að fara og heyrði af skemmtilegu kvennastarfi.

Hvort er Mýrin eða Leirdalur þinn völlur, hvernig var síðasta golfsumar hjá þér og hvernig fannst þér vellirnir okkar það sumar?

Mýrin eftir vinnu og Leirdalur um helgar. Golfið var ekki uppá það besta síðasta sumar, endalaus hækkun á forgjöf en skemmtilegur félagsskapur bætti það upp. Vellirnir voru fínir og skemmtilegar breytingar á 10. og 16. holu á Leirdalnum.

Kvennanefnd GKG heldur utan um marga skemmtilega viðburði sem falla heldur betur vel í kramið hjá kvenkylfingum GKG. Hvað verður helst á döfinni í kringum kvennastarfið í sumar og ef einhverjar GKG konur sem þekkja ekki til þessara viðburða eru að lesa þetta og langar að vera með, hvert leita þær eftir frekari upplýsingum?

Þriðjudagsgolfið verður á sínum stað á Mýrinni, einnig ætlum við að heimsækja Kiðjaberg, Öndverðarnes og Setbergið.  Við viljum endilega að allar GKG konur séu á póstlistanum okkar en hér er hægt að skrá sig á hann https://gkg.is/um-gkg/felagsstarf/kvennanefnd/ Facebook síðan okkar er https://www.facebook.com/groups/155584571238308 og einnig má senda okkur línu á netfangið gkgkonur@gmail.com Við tökum vel á móti öllum konum hvort sem þær eru byrjendur eða lengra komnar.

Tekurðu þátt í Meistaramótum GKG og ef svo, hverjar eru væntingarnar fyrir mótið í sumar og áttu einhver leynitrix fyrir okkur hin?

Já, stefni á lækkun á forgjöf. Leynitrixið er að skrá sig og taka þátt í skemmtilegasta móti sumarsins því þú vilt alls ekki missa af þessari skemmtun.

Einhver önnur plön og væntingar inn í golfsumarið framundan?

Markmiðið er að spila mikið, hafa gaman og ná að fara Leirdalinn á undir 100 höggum.

Hver er uppáhaldskylfan?

Pútterinn.

Hvert er drauma GKG hollið þitt og hvaða utanfélagsmaður fengi að vera með í hollinu?

Get ekki gert uppá milli GKG-inganna enda allir svo skemmtilegir, ætli pabbi eða Jónas Gestur bróðir minn fengju ekki að vera utanfélagsmaðurinn.

Hvað er það skemmtilegasta sem þú hefur lent í á golfferlinum?

Spila alla GSÍ velli á landinu á fjórum árum og vinna fjórða flokkinn 2020.

En það vandræðalegasta?

Líklega þegar ég var í móti og sló boltanum í lengdarstiku svo stór sá á og ég þurfti að labba töluverða leið til baka að boltanum.

Hvert er uppáhalds leikformið þitt?

Ætli það sé ekki holukeppnin, annars finnst mér þetta allt saman skemmtilegt.

Hver eru bestu og verstu golfkaupin sem þú hefur gert í gegnum golftíðina?  

Bestu kaupin  eru rafmagnskerrann. Verstu kaupin eru líklega liðsbúningarnir sem Pörin keyptu á netinu og við þurftum að fara með þá til saumastofu Hassans og hann þurfti að minnka einhverja búningana og nýta afgangana af þeim til að stækka aðra þar sem þeir voru annaðhvort allt of stórir eða allt of litlir.

Uppáhalds holan þín á Leirdalnum?

Ellefta holan, hef oft náð góðu skori á henni.

Uppáhalds holan þín á Mýrinni?

Önnur holan því þar á ég smá séns á holu í höggi.

Hver er uppáhaldsvöllurinn fyrir utan GKG?

Þeir eru svo margir skemmtilegir, ætli ég segi ekki Oddurinn, Vestmannaeyjar, Húsavík  og Höfn.

Notar þú golfhermana og ef, hver er upplifunin?

Hef ekki verið dugleg að fara í þá en stefni á að spila meira næsta vetur.

Áttu þér fyrirmynd í golfinu?

Ingibjörgu Ólafsdóttur.

Uppáhaldsnestið í golfpokanum?

Vit-Hit, Yankee og flatkaka með hangikjöti frá Mulligan.

Hvað er lang, lang best við GKG?

Félagsskapurinn og stemningin í klúbbnum.