Alcaidesa við Gíbraltar: Derrick Moore, Agnar Már, Úlfar og Arnar Már

 

Í hvaða sveitarfélagi býrðu? 

Ég hef búið í Kópavogi s.l. 25 ár en er alltaf Hafnfirðingur inn við beinið, get flokkað mig sem Gaflara þar sem ég fæddist á Sólvangi. 

Aldur og forgjöf? 

56 ára og +2,1.  

Hvað dró þig að golfinu og hvenær? 

Pabbi tók mig með á Hvaleyrina þegar ég var 8-9 ára. Ég er honum ævinlega þakklátur fyrir það enda eignaðist ég áhugamál og ævistarf sem ég brenn fyrir á hverjum degi. 

Hvers vegna valdirðu GKG, hvernig fer um þig í klúbbnum og hefurðu eitthvað að segja um félagsstarfið almennt? 

Mér var boðið að þjálfa Meistaraflokkinn 2004. Svo bættust við unglingaflokkarnir og að byggja upp barna,- unglinga- og afreksstarfið. Þetta hefur undið upp á sig enda státar GKG af öflugasta ungmennastarfi á Íslandi og reyndar í heiminum öllum. 

Mér hefur liðið vel í GKG frá fyrsta degi enda er hér frábær hópur starfsmanna og félagsmanna. Það hefur verið ævintýralegt að taka þátt í uppbyggingunni og horfa til baka hversu GKG hefur vaxið mikið frá stofnun.  

Félagsstarfið er frábært og fjölbreytt. Mjög öflugt kvenna- og öldungastarf og fjölmörg mót og mótaraðir ásamt félagslegum viðburðum gera klúbbinn mjög líflegan og skemmtilegan. GKG býr vel að stórum hópi sjálfboðaliða sem gera þetta mögulegt.

Uppáhalds hringurinn, er það Leirdalurinn allur, efri eða neðri þegar honum er skipt upp eða Mýrin?  Hvers vegna? …. og á einhver ein hola meira í þér en aðrar? 

Leirdalsvöllurinn allur eins og hann kemur fyrir á skorkortinu er einn af mínum uppáhaldsvöllum og er alltaf að verða betri og betri. Völlurinn er mjög fjölbreyttur og reynir á allar hliðar leiksins. 

Það eru margar frábærar brautir á vellinum en 1., 11., 12., 16. og 18. eru líklega mínar uppáhalds. 

Nú þegar nokkuð er liðið á golfsumarið, hvernig er það búið að vera? Eru plön og væntingar að ganga eftir? Er eitthvað sem stendur út úr í spilamennskunni, gott og/ekki eins gott? 

Þetta sumar hefur verið mjög gott, ég lækkaði mig úr 0,0 í +2,1 í sumar og þakka það betri árangri á flötunum. Skipti um pútter og breytti smá tækniáherslum og fór að æfa aðeins, sem ótrúlegt en satt, hjálpar! Þetta hefur skilað sér í fleiri lágum skorum þar sem ég missti mun sjaldnar stutt pútt og setti yfirleitt niður nokkur 4-6 metra pútt á hring. 

GKG ferð á Morgado: Helga, Úlfar, Soffía og Agnar

Hver er styrkur þinn með kylfurnar og er einhver veikleiki?  Uppáhalds kylfan þín og uppáhalds höggið þitt, hvers vegna?  

Stutta spilið, þ.e. högg innan við 80 metra og stutt vipp hefur alltaf verið minn styrkleiki og eitthvað sem ég hef getað treyst á. Slátturinn er yfirleitt stöðugur ef gamlir draugar láta ekki á sér kræla. 

Uppáhaldskylfan er líklegast dræverinn. Það jafnast fátt á við að framkvæma eins góða sveiflu og maður getur og smellhitta dræv sem flýgur fallega á þann stað sem maður sá fyrir sér. 

En í raun er erfitt að gera upp á milli því tilfinningin að slá högg af stuttu jafnt sem löngu færi, sem heppnast fullkomnlega er alveg ómótstæðileg og eitthvað sem maður fær aldrei nóg af. Það er þessi golfbaktería sem talað er um. 

Hvaða tímabil í golfinu í gegnum golftíðina er þitt besta,  hvað gerði það gott og hverju skilaði það þér? 

Mín gullaldarár voru 1986-1994. Það skilaði sex Íslandsmeistaratitlum í höggleik, Norðurlandameistaratitli og góðum árangri í nokkrum atvinnumannamótum. Mín bestu ár voru 1992-1994 en ég lenti síðan í meiðslum sem gerðu það að verkum að fjaraði fljótt undan atvinnumannaferlinum.  

Hvað er það eftirminnilegasta sem þú hefur lent í á golfferlinum og hvað er það vandræðalegasta? 

Það er ótal margt eftirminnilegt en vil nefna þegar ég spilaði með Phil Michelson í háskólamóti í Colorado 1991. Hann var í tveimur höggum rétt fyrir utan flöt, ca. 6 metra frá holu. Eina leiðin til að komast nálægt holu var að lyfta boltanum yfir hrygg sem var á milli. Hann tekur mikla sveiflu með galopinn kylfuhaus og fer beint undir boltann þannig að hann hreyfðist ekki, heldur lá verr í grasinu. Þaðan tók hann lágt vipp sem endaði frekar langt frá holu.  

Eftir hringinn heyrði ég af því hann hefði verið ósáttur við “Svíann” sem spilaði með honum, vildi meina að ég hefði brosað af óförum hans, sem var engan veginn rétt. Ég var bara í mínum heimi, sjálfsagt með ánægjusvip enda bara glaður að vera að spila golf í geggjuðu veðri á frábærum velli upp í fjöllum Colorado. Michelson vann síðan mótið og ég lenti í þriðja sæti. 

Það eru allt of mörg vandræðaleg augnablik. T.d. taldi ég mig hafa sett vallarmet eftir að hafa spilað á 65 höggum á fyrsta degi Meistaramótsins í sumar (í 50+ flokknum á gulum teigum). Aggi fann einhverja gamla mynd af mér og setti á skjáina og setti færslu á facebook og hvaðeina.  

Svo daginn eftir sest Birgir Leifur hjá okkur í matsalnum, tekur eftir þessu og fer að spá hvort hann hafi ekki spilað á 62 höggum í Minningarmótinu tveimur árum áður. Það renna á mig tvær grímur og ég fer að sjálfsögðu að grafast fyrir um þetta. Jú viti menn, þetta var rétt hjá Birgi Leifi. Það sem verra var er að ég var mótsstjóri í því móti, afhenti honum verðlaun fyrir þann árangur og skrifaði frétt um mótið! Minnið er greinilega að gefa sig með aldrinum, þetta var mjög vandræðalegt. 

Sækir þú þér, meistarinn sjálfur,  reglulega kennslu í golfinu og þá í hverju helst?  

Ég leita stundum til Arnars Más og Andrésar, afreksþjálfara í GKG. Það er þá meira að við erum að pæla og spjalla um hlutina. Þeir kannski leiðbeina mér með ákveðnar hreyfingar bara á skrifstofunni. Svo fer ég og prófa, sumt virkar mjög vel, annað ekki enda kennitalan stundum að koma í veg fyrir ákveðnar hreyfingar. 

Næturgolf í Tyrklandi

Áttu þér fyrirmynd í golfinu og hver er þinn uppáhalds, uppáhalds golfari? 

Mínir uppáhalds golfarar í gamla daga voru Seve Ballesteros og Fred Couples. Síðan Tiger og Rory. Mínar fyrirmyndir hafa yfirleitt verið kylfingar sem hafa þurft að hafa mikið fyrir því að ná þeim árangri sem þeir geta státað af. Af þeim íslensku er Birgir Leifur í uppáhaldi og enn sem komið er enginn sem hefur náð hans getu. 

Bestu og verstu golfkaupin sem þú hefur gert í gegnum golftíðina?  

Þegar ég var í háskólagolfinu á sínum tíma var ég með dræver sem virkaði mjög vel fyrir mig. Mér bauðst að setja nýtt skaft á hausinn og einhverra hluta vegna þáði ég það. Ég hinsvegar stytti mig um 20-30 metra og mátti nú ekki við því, þannig að ég þurfti að finna mér nýjan dræver því ekki var hægt að setja gamla skaftið aftur á sinn stað. 

Yfirleitt hafa nú mín golfkaup verið býsna góð og ég er ekki mikið að breyta þannig séð. Ætli bestu kaupin séu ekki Spider pútterinn sem ég keypti af Aroni Snæ fyrir 3-4 árum. Hann virkaði ekki strax og vann sér ekki inn sess í pokanum fyrr en í vor. Púttin voru yfirleitt inni í sumar með tilheyrandi lágum hringjum og lækkun í forgjöf. 

Í kringum Meistaramót GKG, hvort stendur meira upp úr hjá þér, keppnis- eða stemningsskapið og lumarðu á einhverjum meistaramóts-leynitrixum fyrir okkur hin? 

Stemninginn í kringum Meistaramótið er það sem stendur uppúr. Fyrir okkur sem vinnum í kringum mótið þá eru dagarnir mjög langir en það er partur af gleðinni að vera í kringum keppendur og sjálfboðaliða frá morgni til kvölds. 

Ég fer síðan út á völl með sama hugarfari og ég geri alltaf, að njóta. Ég fer með það hugarfar út á völl ásamt þolinmæði og góðum skammti af æðruleysi og einbeitingu. 

Ertu annars enn mikið að keppa í mótum og ef, hvers konar mótum? 

Nei ég er ekki að þræða mótin svo mikið en ég reyni að fara í Mánudagsmótaröðina hjá okkur og helstu innanfélagsmótin. Einnig hef ég keppt í 2-3 LEK mótum undanfarin sumur. 

Hvert er spilamunstrið þitt yfir sumarið? Spilarðu yfirleitt með sömu félögunum eða skráirðu þig bara í lausan rástíma sem hentar þér, jafnvel þótt þú þekkir engan í hollinu? Ertu í einhverjum spilahóp og ef, hverjum og hvað einkennir þann félagsskap? 

Það er allavega. Ef ég spila Leirdalsvöllinn þá er það í Mánudagsmótaröðinni með ýmsum meðspilurum. Svo spilum við Helga mín saman og þá erum ýmist búin að mæla okkur mót eða skráum okkur með einhverjum eða skráum okkur á rástíma og sjáum svo hver koma með okkur. Ég hef aldrei verið óheppinn með meðspilara, það er bara toppfólk í GKG. 

Svo fékk yngri sonurinn hann Hilmar Jón allt í einu ofuráhuga í golfi þannig að við höfum tekið marga hringi saman í sumar, oftast 9 holur. 

Ég er í golfhópnum Tveir undir sem er samansafn mikilla meistara. Þar eru gamlar kempur frá fyrri tíð eins og ég en líka kappar með hærri forgjöf. Það er liða- og einstaklingskeppni þannig að það er hart barist en við spilum yfirleitt fimm til sex sinnum yfir sumarið. Með hverjum fugli eða betra sem kemur hjá leikmönnum safnast í góðan sjóð sem er síðan færður góðgerðarfélagi sem sigurliðið hefur ánafnað. 

Íslenskir Skotar í fullum skrúða í heimalandinu

Hvert er uppáhalds leikformið þitt og hvers vegna? 

Það er höggleikur. Það reynir mest á einbeitinguna og gerir mann að betri golfara að telja höggin frekar en punktana. 

Uppáhaldsnestið í golfpokanum? 

Heimatilbúin samloka með sultu og hnetusmjöri og flatkaka með hangikjöti frá Mulligan. 

Hvert er drauma GKG hollið þitt og hvaða utanfélagsmaður fengi að vera með í hollinu? 

Drauma GKG hollið mitt er Helga mín og synirnir Aron og Hilmar Jón. Drauma utanfélagshollið væri Tiger, Fred Couples og Ernie Els. Ég og Couples myndum rústa hinum í betri bolta. 

Spilarðu mikið aðra velli og hver er uppáhaldsvöllurinn fyrir utan GKG? 

Já ég er nokkuð duglegur við það, yfirleitt 9-10 velli á hverju sumri. Mér finnst Jaðarsvöllur með þeim bestu hvað heildina varðar, þ.e. layout og umhverfi. Svo er alltaf ákveðinn sjarmi að spila Grafarholtið af öftustu teigum. Ég get líka nefnt fleiri velli sem mér finnst mjög gaman að spila, eins og Hvaleyrina og Vestmannaeyjar. Svo gengur mér alltaf vel í Borgarnesi. 

Hvernig notar þú golfhermana og hvernig er það öðruvísi en að spila úti? 

Golfhermarnir eru algjör bylting og hafa hjálpað mér að skilja golfsveifluna betur. Það er engin spurning að eftir að golfhermarnir komu þá hef ég náð mun meiri stöðugleika í sveiflunni enda er maður ekkert að giska lengur á hvað maður er að gera rétt og rangt. 

Þegar ég spila í hermum þá er það fyrst og fremst ánægjunnar vegna. Maður er reyndar alltaf með góða og slétta legu og blankalogn þannig að aðstæður eru ekki líkar hvað það varðar. En Trackman hermirinn er það fullkominn að svörunin er rétt eftir því hvernig höggið heppnast. Þetta er alltaf að verða fullkomnara og nær raunveruleikanum, eins langt og það nær. 

 

Bjargaði parinu! Louisiana Classic 1991

Hvað er lang, lang best við golfið og við GKG? 

Golfið er svo magnað. Það er þessi ákveðna óvissa fyrir hvert högg sem gerir þetta svo spennandi. Svo heppnast höggið, eða ekki. Maður er að keppa fyrst og fremst við sjálfan sig og völlinn. Að slá gott högg, vipp eða pútt er eitthvað sem maður einfaldlega fær aldrei leið á. 

GKG stemningin og andinn sem er í klúbbnum er engu líkur. Fólkið sem hefur þetta sameiginlega áhugamál og allir sjálfboðaliðarnir sem eru að gefa ómældan tíma í að leggja sitt af mörkum við að búa til þessa stemningu er það sem gefur þessu gildi og er ómetanlegt.  

Nú er GKG 30 ára í ár. Hvernig hefur afmælisbarnið þroskast þessa þrjá áratugi og hvernig sérðu klúbbinn þróast næstu 30 árin? 

Stjórnendur GKG í byrjun með Gunnlaug Sigurðs í fararbroddi settu snemma þá stefnu að vera með öflugt barna- unglinga- og afreksstarf, að GKG yrði íþróttafélag. Þessari stefnu hefur síðan alltaf verið fylgt eftir af stjórnendum og starfsfólki. Seinustu 10 ár hafa síðan verið ævintýraleg hvað varðar uppbyggingu á vellinum og allri aðstöðu fyrir félagsmenn, þ.e. Íþróttamiðstöðin með alla golfhermana og aðra aðstöðu fyrir kylfinga. Það eru alltaf margir aðilar sem koma að slíkri uppbyggingu en þetta hefði ekki orðið að veruleika nema fyrir krafta Guðmunds Oddssonar fyrrum formanns og Agnars framkvæmdastjóra. 

Á næstu 30 árum munum við sjá Leirdalsvöllinn dafna og þroskast enn meira og nýjan 9 holu völl byggjast upp vonandi innan 10 ára. Það er þrengt að okkur í dalnum enda verið að byggja allt í kring. En metnaður okkar er að völlurinn og aðstaðan sé meðal þess besta sem þekkist í Evrópu og ég hef trú á því að bæjaryfirvöld hafa sama metnað. Í GKG eru um 2600 meðlimir, við erum í fararbroddi í barna, unglinga- og afreksstarfi, sem og almennu félagsstarfi, tel ég óhætt að segja. GKG er lýðheilsustofnun þar sem fólk á öllum aldri stundar heilsubætandi íþrótt sem eflir líkamlega og andlega getu. Það góða við þetta er að margir aðrir klúbbar hafa álíka metnað fyrir íþróttinni og sinni aðstöðu. Því verður golfíþróttin í mjög góðum málum um ókomna tíð. 

 

 

 

 

 

 

Fyrsta unglingalandsliðsferðin. EM U21 á Írlandi 1984: Efri röð: Þorsteinn Hallgrímsson, Magnús Ingi Stefánsson, Ívar Hauksson, Kristján Hjálmarsson, Neðri röð: Úlfar, Guðmundur S. Guðmundsson og Stefán Stefánsson liðsstjórar, Sigurður Sigurðsson.