Á haustmánuðum síðasta árs setti íþróttanefnd GKG á laggirnar sérstakt meistaraflokkráð til að styðja við bakið á íþróttastjóra og afreksþjálfara í málefnum meistaraflokka klúbbsins. Meistaraflokksráðið skipa Gunnar Páll Þórisson, Þórður Már Jóhannesson og Sigmundur Einar Másson.
Meistaraflokksráðið ásamt Úlfari íþróttastjóra og Derrick afreksþjálfara hafa gert stöðugreiningu og mat á því hvernig GKG getur bætt umgjörð og áherslur í afreksstarfinu. Mikilvægt er að fremstu og metnaðarfyllstu kylfingar klúbbsins fái aðhald og aðstoð frá þjálfarateymi GKG og öðrum sérfræðingum til að ná hámarksárangri.
Gert hefur verið samkomulag við átta kylfinga GKG sem saman mynda svokallað “Team GKG”. Allir kylfingar í þessum hópi hafa þegar náð skilgreindum kröfum GKG og hafa sett fram háleit markmið í golfi og stunda æfingar og keppni af fullri einbeitingu. Ákveðið hefur verið að styðja við og aðstoða þessa einstaklinga betur og markvissar en áður. Afreksþjálfari GKG mun vinna með hverjum og einum í tækni- og keppnistengdum þáttum en auk þess fylgjast með og taka þátt í að skipuleggja vinnu kylfingsins með öðrum sérfræðingum í sambandi við líkamsþjálfun, hugarþjálfun ofl. Þannig verður aukin áhersla á einstaklingsmiðaða aðstoð og aðhald.
Sérstök áhersla verður lögð á hópefli. Hópurinn mun stunda æfingar saman, einnig á milli skipulagðra æfinga. Þjálfarateymi GKG mun þannig stýra m.a.leikþjálfun hópsins og virkja eldri og reyndari afrekskylfinga GKG til að vinna með og miðla reynslu til yngri leikmanna.
Þessir einstaklingar eru ekki einungis góðir kylfingar heldur einnig afar góðar fyrirmyndir yngri sem eldri kylfinga. Miklar vonir eru bundnar við þá að auka hróður GKG sem og þeirra sjálfra með góðum árangri og framkomu.
Á myndinni eru, frá vinstri: Gunnar Páll Þórisson, Derrick Moore, Ragnar Már Garðarsson, Særós Eva Óskarsdóttir, Kristófer Orri Þórðarson, Emil Þór Ragnarsson, Egill Ragnar Gunnarsson, Aron Snær Júlíusson, Alfreð Brynjar Kristinsson, Úlfar Jónsson, Þórður Már Jóhannesson. Á myndina vantar Gunnhildi Kristjánsdóttur sem er við nám og golf í Bandaríkjunum.