Sigurður Arnar Garðarsson, 14 ára kylfingur úr GKG, og einn sá allra efnilegasti á landinu, stóð sig feikivel í tveimur alþjóðlegum mótum sem hann tók þátt í í Flórída um jólin.
Sigurður tók þátt í ásamt Kristófer Karli Karlssyni úr GM á Doral-Publix Junior Golf mótinu sem fór fram í Flórída. Mótið var haldið á hinum fræga Trump National Doral vellinum í Miami, þar sem WGC-Cadillac mótið hefur verið haldið undanfarin ár á PGA tournum. Sigurður lék á 72-73-83, +12 og hafnaði í 13. sæti. Kristófer lék einu höggi verr og hafnaði í 15. sæti. Það var hinn bandaríski Michael Thorbjornsen sem vann mótið.
Hér er hægt að skoða úrslitin úr Doral Publix mótinu.
Sigurður Arnar lék síðan núna milli jóla og nýárs á American Junior mótinu, sem haldið er á King & Bear vellinum í St. Augustine. Völlurinn er sameiginleg hönnun kappanna Nicklaus og Palmer, en hægt er að fljúga yfir hverja braut með því að smella hér.
Aðeins er keppt í einum flokki pilta, 19 ára og yngri, og því var Sigurður að keppa við mikið eldri stráka oftast, og á mjög löngum velli, 6500 metrar. Óhætt er að segja að árangurinn hafi verið frábær hjá stráknum, en hann lék 81-81-79, +25 og endaði jafn í 22. sæti af 48 keppendum. Átján ára piltur úr GR, Jóhannes Guðmundsson, lék tveimur höggum betur og hafnaði í 21. sæti.
“Það er frábært tækifæri fyrir mig að fá að keppa erlendis til að öðlast reynslu og kynnast því hvernig aðrir á sama eða svipuðum aldri eru að spila. Mér finnst gaman að sjá hversu mikil og góð umgjörðin er í þessum mótum og eins að sjá alla þjálfarana ganga með sem eru að fylgjast með þar sem þeir eru að leita eftir góðum spilurum fyrir skólann sinn.” sagði Sigurður Arnar.

Frá vinstri: Jóel Gauti, Ragnar Már, Sigurður Arnar og Ragnheiður Myndir: Ragnheiður Sigurðardóttir