Egill Ragnar Gunnarsson tryggði sér landsliðssæti fyrr í sumar og lék á EM í Luxemborg með karlaliðinu. Í haust hóf hann nám við Georgia State University á golf skólastyrk.
Nafn: Egill Ragnar Gunnarsson
Fæddur: 1996
Meðlimur í GKG síðan 2006
Forgjöf í dag: +0,1
Skóli: Georgia State University, Atlanta Georgia.
Heimasíða golfliðsins
Upplýsingar um mótaskrá og árangur golflið Georgia State University
Egill Ragnar er fyrsti Íslendingurinn til að leika með golfliði skólans.
1. Hvernig kom það til að þú fórst í þennan skóla?
Þegar ég var að leita að skólum í Bandaríkjunum þá hugsaði ég með mér að skólinn þyrfti að vera í suðurríkjunum til þess að geta spilað og æft úti allan ársins hring, að ég gæti stundað það nám sem ég vildi og með flott golfprógram. Georgia State University uppfyllti þetta þrennt og bauð mér flottan styrk og endaði hann á því að verða fyrir valinu
2. Færðu skólastyrk?
Já ég fæ skólastyrk sem ég er mjög ánægður með.
3. Hvaða námi ertu í?
Ég er í tölvunarfræði
4. Hvernig hefur gengið að aðlagast nýju umhverfi og menningu?
Það hefur gengið mjög vel hingað til. Ég bý með tveimur strákum sem eru báðir í golfliðinu og þeir hafa hjálpað mér að venjast umhverfinu og menningunni.
5. Hvað hefur komið mest á óvart?
Það sem hefur komið mér mest á óvart er hve ólíkur maturinn hérna er frá því sem við erum vön heima. Mac n‘ Cheese og Peanutbutter and Jelly sandwiches er gríðarlega vinsælt. Að tala ensku alla daga var erfitt í fyrstu en sem betur fór tók það ekki langan tíma að venjast því.
6. Eru góðar aðstæður til að æfa og spila?
Já aðstæðurnar eru mjög góðar. Við æfum á tveimur golfvöllum sem eru í 25 mínútna akstursfjarlægð frá skólanum. Hingað til hefur veðrið verið yndislegt, stuttbuxur og bolur alla daga. Það mun þó kólna bráðlega. Þjálfarinn er að vinna í því að fá inniaðstöðu í miðbæinn ef við viljum ekki keyra á golfvöllinn. Vonandi verður sú aðstaða tilbúin á næsta ári.
7. Eru mörg og spennandi mót framundan?
Á hausttímabilinu þá eru tvö mót eftir, næsta mót er í Norður-Karólínu og það hefst næstkomandi sunnudag. Helgina eftir það þá fer liðið til Hawaii og spilar þar í síðasta móti tímabilsins. Eftir áramót þá spilum við í fimm mótum víðsvegar um Bandaríkin.
8. Eitthvað að lokum?
Ég mæli eindregið með því að fara til Bandaríkjanna á íþróttastyrk. Þetta er einstakt tækifæri sem er þess virði að grípa.