Kæru félagar,
Nú styttist í veisluna okkar, Meistaramótið er framundan og skráning hefst föstudaginn 22. júní kl. 12:00.
Það verður mikið lagt upp úr því að gera meistaramótið eins glæsilegt og frekast er kostur. Við munum brydda upp á nýjungum eins og að veita nándarverðlaun á hverjum degi á annarri og sautjándu holu. Verðlaun verða veitt fyrir flesta punkta dagsins og fleira og fleira. Vignir vert í Mulligan verður með bacon og egg frá kl. 07:00 á morgnana og kl. 10:00 verður Brunch fram eftir degi. Á góðviðrisdögum verður grillað á veröndinni.
Núna í vor gerðum við könnun meðal félagsmanna varðandi Meistaramótið okkar. Mótsstjórn hefur farið yfir þær ábendingar sem þar bárust og verða eftirfarandi breytingar gerðar á Meistaramótinu árið 2017:
- 4. flokkur kvenna hefur verið spilaður sem punktakeppni og hefur það fyrirkomulag reynst vel, töluverð fjölgun varð í þeim flokki. Karlar í 5. flokki kalla eftir sama leikfyrirkomulagi. Mótstjórn hefur því ákveðið að 4. flokkur kvenna og 5. flokkur karla verði spilaður sem punktamót í ár.
- Öldungaflokkarnir voru spilaðir í fyrra sem höggleikur með forgjöf. Í ár bætist sú regla við hjá öldungunum að 10 högg eru hámarkshögg á holu. Ef öldungur er kominn með 10 högg, þá tekur hann upp boltann, skráir á sig 10 högg og parar bara næstu.
- Mótsstjórn hefur ákveðið að fjöldi mótsdaga hjá 18 ára og yngri verði aftur þrír dagar. Jafnframt var ákveðið að krakkar undir 18 ára megi eingöngu taka þátt í sínum flokkum nema þeir séu með meistaraflokksforgjöf. Þá var ákveðið veita verðlaun fyrir höggleik með forgjöf auk hefðbundinna verðlauna fyrir höggleik hjá þessum flokkum. Sama regla verður með 10 höggin hjá þessum flokkum eins og hjá öldungunum.
- Aðrir flokkar verða spilaðir með hefðbundum hætti.
Sem sagt veisla framundan hjá okkur GKG-ingum. Skráning hefst í mótið á golf.is kl. 12:00 á hádegi föstudaginn 23. júní.
Allar nánari upplýsingar um mótið er að finna hér.
Mótsstjórn.