Flottur fyrirlestur hjá Tómasi um hugarþjálfun kylfinga

Home/Fréttir/Fréttir almennt/Flottur fyrirlestur hjá Tómasi um hugarþjálfun kylfinga

Flottur fyrirlestur hjá Tómasi um hugarþjálfun kylfinga

GKG meðlimir kunnu vel að meta fyrirlestur Tómasar Aðalsteinssonar íþróttasálfræðings sem fór fram í gær í Íþróttamiðstöð GKG. Um 90 kylfingar hlustuðu og tóku þátt í fræðandi erindi um hugarþjálfun kylfinga og hafa því gott veganesti til að vinna með áður en golfvertíðin hefst. Á undan almennu félagsmönnunum höfðu um 35 keppniskylfingar GKG tekið þátt í fyrirlestrinu hjá Tómasi.

Tómas er aðstoðarprófessor í íþróttafræðum við Williams College í Massachusetts, ásamt því að þjálfa kvennagolflið skólans. Hann er með meistaragráðu í íþróttasálfræði frá JFK University í Kaliforníu. Ásamt þjálfun og kennslu hefur Tómas unnið með atvinnukylfingum og íþróttafólki úr ýmsum greinum með það markmið að ná betri árangri með öflugum undirbúningi, aukinni einbeitingu og bættu hugarfari.

Tómas er hér á landi í fríi og höfum við ásamt fleiri golfklúbbum fengið að njóta fyrirlestra hans sem eiga svo sannarlega erindi við okkur sem viljum bæta okkur í þessum mikilvæga þætti.

Félagsstarfið í GKG hefur svo sannarlega verið blómlegt í vetur. Mikið um námskeið af ýmsum toga, svo sem jóganámskeið, Trackman námskeið og almenn golfnámskeið. Næst á dagskrá er fyrirlestur um kylfumælingar 14. febrúar með Hauki Má PGA kennara í GKG og í framhaldinu býðst að prófa kylfur frá Ping, Titleist og Malby 18. febrúar.

 

 

By |08.02.2018|