Kæru félagar,
Um helgina fögnuðum við saman opnun Íþróttamiðstöðvar GKG með glæsilegum hætti. Hátt í þúsund manns komu til okkar á laugardeginum og um 400 á sunnudeginum. Þetta eru mikil tímamót fyrir okkur GKG-inga og fyrir golfíþróttina í heild sinni. Það er mörgum sem ber að þakka þennan áfanga, verktökum, bæjarfélögum, stjórn og starfsfólki. Það eru þó tveir aðilar sem ég vil sérstaklega benda á í þessum hugleiðingum mínum, annars vegar er það sjálfboðaliðateymi GKG sem lyfti grettistaki á lokametrunum þegar neðri hæðin var kláruð ásamt uppsetningu á hljóð og myndlausnum. Hinn aðilinn sem ég vil færa sérstakar þakkir er fyrrverandi formaður okkar hann Guðmundur Oddsson. Með elju, þrautseigju, útsjónarsemi og festu náði hann að landa því sem landa þurfti í aðdraganda byggingarinnar, án hans aðkomu væri ekkert hús risið.
Hvert verður svo framhaldið?
Nú bjóðum við golfiðkendum upp á heilsársþjónustu hjá GKG. Við þurfum um viku við að klára að fínpússa allt í kringum golfhermana, klára púttflötina og hengja upp net á neðri hæðinni. Sjálfboðaliðateymi GKG mun hafa aðgang að golfhermunum á þeim tíma og hjálpa okkur með þeim hætti að sníða af alla vankanta. Þá munum við innleiða bókunarkerfi fyrir herma og golfkennara sem vonandi verður komið upp fyrir sunnudaginn 17. apríl.
Verslun GKG er nú þegar formlega opnuð og verður hún opin á skrifstofutíma eða milli kl. 09:00 til 17:00, yfir golfvertíðina verður hún hins vegar opin frá 08:00 til 22:00. Í versluninni verður boðið upp á allt það sem kylfingurinn þarf til að iðka íþróttina, allt frá tíum upp í golfsett. Þá er vert að geta þess að GKG-ingar fá 15% afslátt af öllum vörum.
Við erum vonandi að klára ráðningu á nýjum vert. Þau mál skýrast í vikunni og þá munum við jafnframt upplýsa ykkur hvenær veitingaaðstaðan opnar og hvaða aðilar það verða sem taka við keflinu af honum Sigga okkar.
Síðast en ekki síst, þá koma vellirnir okkar mjög vel undan vetri. Gummi og hans menn fara nú í það að undirbúa völlinn af fullum krafti, en þeir, eins og aðrir hafa verið á fullu í frágangi í nýja húsinu. Við munum ekki geta gefið það út nákvæmlega hvenær vellirnir verða opnaðir, það ræðst af veðurfarinu. Gummi vallarstjóri sendir frá sér tilkynningu síðar í mánuðinum varðandi þau mál.
Með GKG kveðjum!
Aggi.